Islenska

Hvað er Ullarvikan?

Ullarvika á Suðurlandi 2020 – South Iceland Woolweek – verður haldin 4.-11. október 2020. Miðstöð ullarvikunnar verður í Félagsheimilinu Þingborg í Flóa og megindagskráin fer þar fram. Boðið verður upp á námskeið í handverki og fengnir til þess kennarar frá m.a.  Íslandi, Skotlandi, Hjaltlandseyjum og Bandaríkjunum,

Alla daga ullarvikunnar verður opin kaffistofa í Þingborg, þar sem gestum gefst kostur á að setjast niður, fá sér kaffi og stunda sitt handverk og njóta þeirra sýninga sem verða settar upp í Þingborg og koma til með að standa allan tímann. Öll kvöld verða fyrirlestrar og í framhaldi af þeim opið hús þar sem boðið verður upp á ókeypis leiðbeiningar í prjóni, hekli og öðru sem viðkemur vinnu úr ull.  

Sett verða upp verkefni fyrir börnin í Flóaskóla og í leikskólanum Krakkaborg, þeim mun gefast kostur á að sinan því verkefni eins og áhugi og tími þeirra leyfir.   

Settur verður upp markaðsdagur á laugardegi ullarvikunnar, þar mun aðilum sem tengjast handverki, ull og sauðfé gefast kostur á að kynna sín fyrirtæki og framleiðslu.  

Þá verður hægt að fylgjast með rúningi á vegum Uppspuna smáspunaverksmiðju í Lækjartúni, ullarmat og áframhaldandi vinnslu ullarinnar í band. Gestum gefst einnig kostur á að kaupa sér reyfi og annaðhvort fá unnið band að eigin vali  eða vinna það sjálfir.

Litasýning verður á lifandi fé í Árbæjarhjáleigu í Rangárþingi ytra og þar verða kynnt hin ýmsu litbrigði íslenska fjárins.

Boðið verður upp á námskeið af ýmsu tagi, m.a. í prjóni, hekli, spuna, frágangi á prjónlesi, litasamsetningum í prjóni, jurtalitun, litun með laufum (Botanical imprint), þæfingu, gerð uppskrifta og fleira.

Fyrirlestrar er tengjast sauðfé og ull verða haldnir í Þingborg öll kvöld ullarvikunnar. Meðal fyrirlesara eru dr. Ólafur Dýrmundsson, Páll Imsland, Katrín Andrésdóttir, Auður Hildur Hákonardóttir og fl.  Settar verða upp sýningar í Þingborg er tengjast ull og sauðfé, m.a. ljósmyndasýning frá sauðburði til rúnings, slátrunar og ásetnings, vefnaðarsýning og listsýning á verkum úr ull.