Kennarar á Ullarviku 2024

Guðrún Bjarnadóttir

Guðrún Bjarnadóttir er náttúrufræðingur að mennt. Hún jurtalitar band samkvæmt gömlum hefðum en notar til þess nútímatækni td. rafmagn þó aðferðirnar séu þær sömu í grunninn og áður fyrr.

Guðrún byrjaði að lita þegar hún skrifaði MS ritgerðina sína um grasnytar á Íslandi en jurtalitun er eitt form af grasnytjum en þá fann hún gamlar heimildir um litun sem vöktu áhuga hennar. Guðrun er alin upp í mikilli handverkshefð en mamma hennar var handavinnukennari og amma hennar kenndi henni að þekkja jurtirnar og nýta þær. Guðrún Rekur jurtalitunarvinnustofuna Hespuhúsið við Selfoss þar sem gestum gefst kostur á að kíkja í litunarpottana og fræðast um gömlu litunarhefðina.

Margrét Jónsdóttir

Ég heiti Margrét Jónsdóttir, ég rek kúa og sauðfjárbú, en að reka Ullarverslunina Þingborg er mitt aðalstarf.

Ég hef verið umkringd handavinnu frá því ég man eftir mér. Móðir mín er mikil handavinnumanneskja og hún bæði prjónaði mikið og saumaði og gerði einnig ýmsa aðra handavinnu, ég lærði góð og vönduð vinnubrögð frá henni og í handavinnu í grunnskóla undir handleiðslu frábærra kennara og hef einnig lært mikið í Þingborgarhópnum. Eins hef ég sótt ýmis námskeið bæði hér heima og erlendis. Ég hef verið hluti af Þingborgarhópnum frá stofnun hans og hef fengist töluvert við það að hanna peysur og fleira og ég gaf út bókina Lopalist árið 2015 ásamt systur minni Önnu Dóru Jónsdóttur. Ég hélt námskeið í uppbyggingu lopapeysunnar á Shetland Wool week árið 2017 og sama námskeið á Swiss Yarn Festival 2023.

Helga Thoroddsen

Ég er ástríðufullur prjónari og prjónhönnuður ásamt því að elska allt sem viðkemur textíl og skapandi handavinnu.

Ég er með Kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands með sérstaka áherslu á handmennt og textíl auk þess að vera með Meistaragráðu í Vefjaefnafræði (Textile Science) frá Colorado State University. Uppáhaldshandavinnan mín er að skapa og prjóna peysur og að vinna með krefjandi prjóntækni. Íslenska ullin er mér sérstaklega hugleikin og á þessu námskeiði verður eingöngu unnið með jurtalitaða íslenska ull (Wool by Dora).

Liz Gaffney

Liz Gaffney er blómaskreytir að mennt sem hefur gefið henni mikla kunnáttu í grasafræði og hefur átta ára reynslu af því að þróa nýjar aðferðir. Hún er líka mikið í því að þæfa og rækta sínar eigin jurtir til þess að lita með.

Hún kennir námskeið og hlakkar mikið til að deila þeirri ástríðu sem hún hefur fyrir því að prenta jurtir á efni.

Finnið meiri upplýsingar um hana á www.heartfeltbyliz.com eða á facebook, Heartfelt by Liz.

Gunnlaug Hannesdóttir

Ég er textílkennari og hef kennt í grunnskóla í 34 ár. Jafnframt því hef ég haldið fjölda námskeiða fyrir fullorðna í t.d. bútasaum, prjóni, útsaum, pappírsgerð o.fl.

Mitt helsta áhugamál (fyrir utan handverk) er að miðla af reynslu minni og þekkingu og finnst ótrúlega gaman þegar nemendur mínir fara glaðir heim með verkefni sem þeir hafa unnið undir minni handleiðslu. www.gunnhann.is

Kathy Sparks, The Hand Maiden

Kathy Sparks, The Hand Maiden, fagnar fimmtíu árum sem tefjalistamaður.

Hún býr í mið-vestur Bandaríkjunum (Indiana), hún er hætt að kenna vísindi á háskólastigi og núna einbeitir hún sér að rannsóknum við hefðbundna trefjalist, þá sérstaklega að lita með náttúrulegum efnum.

„Allt sem ég framleiði er handgert, með því að nota efni úr heimabyggð eða ræktað á mínum sveitabæ. Þegar einhver notar garn frá mér, eru þau með vöru í höndunum sem er full af náttúrulegum lit sem er ræktaður á staðnum og búinn til með innblæstri frá náttúrunni.“

Námskeið hjá Kathy hafa verið vinsæl, hún hefur kennt spuna, vefnaðar og prjóna námskeið út um allan heim. Sem ræktandi Connemara-hesta, heldur hún áfram að þjóna ræktunarfélaginu sem formaður skoðunaráætlunarinnar. Kathy er amma þriggja virkra ungra drengja og er höfundur þriggja bóka, þar á meðal The Song of the Muskox sem fjallar um uppáhalds trefjar hennar – Qiviut.

Maja Siska

Maja er listakona, arkitekt og ferðaþjónustubóndi sem býr í sveit á suðurlandi. Hún hefur spunnið og prjónað frá því í æsku og hefur yndi af alls kyns handverki.

Undanfarin ár hefur íslenska sauðkindin átt hug hennar allan, og úr afurðum kindarinnar hefur Maja unnið margvísleg verk. www.majasiska.is

Maja hefur kennt spuna á íslandi,  PLYaway í Bandaríkjunum og á Shetland Wool Week. Hún hannar prjónauppskriftir og er á ravelry sem majasiska.

Anna Dóra Jónsdóttir

Anna Dóra Jónsdóttir fædd 1962, uppalin á Syðra-Velli í Gaulverjabæjar-hrepp, nú Flóahrepp. Lærði töluvert í handavinnu í uppvextinum undir handleiðslu móður sinnar.

Hún fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni, er menntuð sem skrifstofutæknir. Hefur einbeitt sér að prjónaskap undanfarin ár og þá sérstaklega að prjóna úr lopa, gaf út prjónabókina Lopalist með Margréti Jónsdóttur systur sinni árið 2015. 

Hulda Brynjólfsdóttir

Hulda Brynjólfsdóttir er Spunasystir sem fór alla leið með spunann; hætti sem kennari og opnaði ásamt Tyrfingi manni sínum fyrstu smáspunaverksmiðju landsins; Uppspuna.

Uppspuni er staðsettur í Lækjartúni á Suðurlandi. Hulda og Tyrfingur búa með nautgripi og sauðfé og spinna garn heima á bænum úr ull af kindunum sínum. Fólk getur líka komið með ull til þeirra og fengið hana spunna í band að eigin óskum. Hulda rekur litla verslun fyrir ofan spunasalinn og selur þar garnið sem hún spinnur í náttúrulegum litum sauðkindarinnar og litar sjálf þá liti sem kindin gefur ekki.

Laura Senator

Laura Senator, einnig þekkt sem Laura Spinner, er barnalæknir og þráð listakona frá Rainbow Twist Shop (sem er á Etsy).

Hún býr í New Jersey í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hún er þekkt fyrir skapandi spuna og litríkt handlitað band og hefur kennt á námskeiðum og smiðjum í bæði bandaríkjunum og á íslandi. Hún er heiðurs Spunasystir.

Marianne Guckelsberger

Áhugasvið mitt eru víkinga og miðalda textílaðferðir eins og landnámsspuni, halasnælduspuni, vattarsaumur og kríl ásamt tilheyrandi áhöldum sem mörgum eru ókunn í dag.

Með því að sameina vísindalegar og sögulegar heimildir með praktíska vinnu gefst glögga mynd af hreint ótrúlegu vinnuframlagi kvenna fyrr á öldum.

Ég hef haldið námskeið í ofangreindum aðferðum í Heimilisiðnaðaskólanum sem og öðrum stofnum bæði hérlendis og erlendis og unnið að endurgerð ýmissa forna textíla, m.a. klæðnaði frá Ketilsstöðum og Herjólfsnesi ásamt fylgihlutum.
Á facebook geng ég undir nafninu Marianne tóvinnukona, þar er hægt að finna myndir af því sem ég geri. 

Þórey Axelsdóttir

Þórey er fædd 1949 austur í Fljótsdal og var þar til tvítugs,flutti þá til Reykjavíkur.

Hún er sjúkraliði og hefur unnið lengstum við það. Þórey hefur haft áhuga á hvers kyns handverki frá unga aldri. Þórey hefur sótt menntun m.a. í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað, í Ullarskóla Íslands og ýmis námskeið í Þingborg sem og af öðru samferðafólki.

Kristjana Kona Ragnhildardóttir Traustadóttir

Ég lærði að hekla árið 2010 og kolféll fyrir því strax á fyrsta degi. Mér finnst sérstaklega skemmtilegt að hekla körfur. Það er tilvalið að geyma handavinnudótið í fallegum körfum í stofunni heima.

Ég nýt þess mest að vinna með náttúrulegt hráefni og hekla allar mínar körfur úr ull.

Ég útskrifaðist úr grunnnámi í textílkennslu við HÍ og hef síðustu ár haldið fjölda handavinnunámskeiða á eigin vegum í gegnum Hringlandi, sem ég stofnaði í fyrra fæðingarorlofinu mínu árið 2018. Ég hef mjög gaman að því að að sjá handavinnuneistann kvikna hjá fólki og verða vitni af því þegar nýtt áhugamál fæðist.