Islenska

Íslenska ullin

Hvers vegna er ullin einstök?

Gæði og notagildi íslensku ullarinnar eru mikil. Við leggjum því áherslu á siðræna og endingargóða framleiðslu ullarvöru, staðbundna vinnslu, rekjanleika, lengri nýtingartíma fatnaðar og mögulega endurvinnslu.

Á hverju ári vex sauðkindinni nýtt reyfi, ullin er því endurnýjanleg auðlind. Íslenskar kindur þurfa að ganga úr reyfinu – við nýtum okkur ull sem fellur til á eðlilegan hátt.

Íslensk ull er þvegin, lituð, kembd og spunnin hér á landi ólíkt megninu af norrænni ull sem þvegin er á Bretlandi. Iðulega er ull flutt heimshorna á milli til mengandi vinnslu og jafnvel bætt í hana plastefnum sem svo losna úr í þvotti (Super Wash band). Sótspor íslensku ullarinnar eru því fá miðað við flest önnur textílefni. Þó best sé að þvo ullina sem sjaldnast hefur hún þann kost fram yfir mörg önnur textílefni að engin óæskileg eða mengandi efni losna úr í þvotti.

Ull er náttúrulegt efni, liður í kolefnishringrásinni og bindur þannig CO2. Lífræn kolefnissambönd eru u.þ.b. 50% af þyngdinni.

Ull er úrvals hráefni í jafnt skjólflíkur sem listhandverk. Ullin er jafnframt einn besti valkosturinn við einangrun og er eldtefjandi efni, hentar því vel í híbýlum manna. Ull er auðvelt að endurvinna og auðvelt er að eyða henni þar sem hún er fullkomlega lífbrjótanleg.

Ullarframleiðendur leitast stöðugt við að bæta meðferð og nýtingu ullarinnar, markmiðið er að gera ullariðnaðinn sjálfbæran til framtíðar.

Áður fyrr var féð rúið á sumrin. Nú er yfirleitt rúið (tekið af) við hústöku meðan ullin er hrein, svo aftur að vori, sú ull er kölluð snoð. Haustreyfin eru 2-3 kg.

Þelhárin eru fínustu og stystu hár (5-10 cm) reyfisins, eru í reyfinu innanverðu og mynda þar svokallaðan þelfót. (spinning count of 64-70 and a micron count of 19-22).  Í íslensku ullinni er um 88% af öllum hárum í reyfinu þelhár en vegna þess hve stutt þau eru og fín vega þau ekki nema um 50% af þunga reyfsins. Að fínleika jafnast íslensku þelhárin við merinóull en munur er á gildleika og lengd.

Þelhárin í íslensku ullinni eru nokkuð frábrugðin sömu hárum á erlendu fé, en þau eru óreglulega liðuð sem gefur íslensku ullinni sérstöðu. Íslensku ullarhárin falla ekki þétt hvert að öðru þannig að þráður eða band sem úr þeli verður fyrirferðameiri en þráður úr jafnmörgum hárum úr t.d. merínóull.

Grófari og lengri hárin nefnast toghár, þau eru 15- 20 cm a lengd. Toghárin vaxa á milli þelháranna í reyfinu og eru misgróf eftir staðsetningu í reyfinu. Togið getur einnig verið mismunandi eftir fé, það getur verið fínt, mjúkt og gljáandi eða gróft sem hrosshár, gljáalaust og hrjúft. (spinning count of 56-60 and a micron count of 27-30)

Íslenska ullin nýtur sívaxandi vinsælda meðal spunafólks. Hún er einnig sérlega vel fallin til þæfingar.