Islenska

Þingborg ullarvinnsla

Ullarvinnslan Þingborg rekur sögu sína aftur til ársins 1990, er hópur kvenna á Suðurlandi sótti þar námskeið í ullariðn, undir stjórn Helgu Thoroddsen vefjarefnafræðings og Hildar Hákonardóttur veflistakonu.  Kennd voru bæði gömul og ný vinnubrögð við ullarvinnslu og almenn fræðsla um eiginleika ullar og vinnslu hennar.

Fljótlega kom upp hugmynd að verslun með ullarvörur og innan árs frá því fyrsta námskeiðið var haldið opnaði námskeiðshópurinn verslun í gamla samkomuhúsinu í Þingborg í gamla Hraungerðishreppi, nú Flóahreppi og stofnað var samvinnufélag utan um hópinn og reksturinn og voru stofnfélagar 35.

 Fyrstu árin skiptu Þingborgarkonur með sér verkum í versluninni á sumrin, en hún var eingöngu opin yfir sumarmánuðina. Síðan hafa einstakar konur innan hópsins tekið að sér að reka verslunina og stundum tvær saman. Verslunin var alltaf rekin á kennitölu samvinnufélagsins en frá 1. janúar 2019 hefur hún verið rekin sem einkahlutafélag af einni úr hópnum. Auk þeirrar sem rekur verslunina er starfskraftur í 60 % hlutastarfi og því hefur ræstst sú sýn, sem lagt var upp með, að skapa atvinnu fyrir konur á svæðinu.

 Verslunin tekur ullarvörur í umboðssölu og eins eru keypt inn nokkuð af vörum til að selja. Allar prjónavörurnar í versluninni eru úr Þingborgarlopa, en hann er sérunninn fyrir Þingborg af Ístex og svo hefur verið allt frá árinu 1992. Þingborgarkonur fara í Þvottastöð Ístex á Blönduósi einu sinni á ári og velja ull í lopann sem svo er þveginn og kembdur hjá Ístex í Mosfellsbæ. Þetta ásamt kembivélinni sem er í húsinu eru hryggjarstykkin í starfsemi Þingborgar.

 Lopapeysur eru megin uppstaðan af því sem selt er í Þingborg. Margar úr hópnum og þær sem leggja inn peysur hanna sín eigin mynstur og þannig verður til mjög fjölbreytt flóra af lopapeysum.

 Ullarvinnslan hefur reynst mikilvægur þáttur í þeirri viðeitni að halda við hefðum í ullarvinnslu og ekki síður að skapa nýjar. Þingborgarhópurinn lítur björtum augum til framtíðar, ullin á bjarta framtíð fyrir sér, nú þegar augu fólks eru að opnast fyrir því að nota ull og önnur náttúruleg efni til fatagerðar í stað gerviefna.

Þingborg hefur frá upphafi átt mjög farsælt samstarf við Ístex.

Í janúar fara Þingborgarkonur á Blönduós þar sem móttaka og ullarþvottastöð Ístex er til húsa. Þar fáum við að velja okkur úrvals lambsull sem þvegin er á Blönduósi. Þvotturinn fer þannig fram að þvottasóda er bætt við volgt vatn í þvottavél, þegar ullin kemur í blönduna þá verður ullarfitan (lanolínið) og þvottasódinn að sápu sem þvær ullina. Þannig má segja að ullin þvoi sig nánast sjálf.

Ístex vinnur síðan fyrir okkur í plötulopa, léttlopa, einband og tvíband. Lopann og bandið seljum við bæði í sauðalitunum, ólitað, jurtalitað og duftlitað.