Búðarháls – 2024

Efni
Hulduband 100m / 50 gr.  – 6 (8) hespur eða 350 (450) gr alls.

Annað garn sem hentar vel:

Feldfjárlopi (plötur) eða Þingborgarlopi
samtals 350 (450 gr) Prjónað með
tvöföldum lopa.

Dóruband 350 (450) gr.

Hringprjónar nr 5,5 og 6,0 mm
4 stórar tölur (38mm eða stærri)
Við mælum með roðtölum gerðum úr fiskroði, þær fást meðal annars í Ullarversluninni Þingborg.

Stærðir
S-M (L-XL)

Aðferð
Vestið er prjónað ofan frá og niður, fyrst er kragi prjónaður með sléttu og brugðnu, skipt yfir í slétt prjón út á axlirnar og síðan klukkuprjóni í sitt hvoru lagi að framan og aftan. Stroff neðst og hliðarkantur er prjónað með sléttu og brugðnu.

Möguleiki er gefinn fyrir tvær gerðir af kraga, þar sem sumum hentar ekki að hafa ullina alveg upp í háls í rúllukraga.

Víður kragi:

Fitjið upp á hringprjón nr 5,5mm 72 (78) lykkjur, tengið í hring og prjónið 1sl og 1br 4 umferðir. Setjið prjónamerki (pm) í byrjun umferðar og eftir 36 (39) lykkjur. (Pm eru á öxlunum). Skiptið yfir á prjóna nr 6,0 mm og aukið út um 6, (7) lykkjur um leið og þið prjónið upp á stærri prjóninn. Á milli útaukninga eru 12 (11) lykkjur. Á prjóninum eiga nú að vera 78 (85) lykkjur. Prjónið 2 umf slétt. Aukið síðan út með því að gera göt; *prjónið 6sl (5sl), sláið upp á prjóninn* Endurtakið *-* út umferðina. Götin myndast svo í næstu umferð þegar prjónað er slétt yfir allar lykkjurnar.

Nú eru 91( 102 ) lykkjur á prjóninum. Prjónamerkin eru í sitt hvorri hlið vestisins. Á minna vestinu eru 45 lykkjur á framstykkinu og 46 á bakstykkinu en jafnmargar lykkjur á báðum stykkjum (51) á stærra vestinu. Prjónið 2 umferðir slétt og ef þið óskið má gera upphækkun að aftan tvisvar sinnum með styttum umferðum. (sjá útskýringar). Prjónið slétt og aukið út um 5 lykkjur jafnt yfir bakstykkið, 1 lykkju á hvorri öxl bakstykkis megin og 2 (3) lykkjur jafnt yfir framstykkið ((milli útaukninga á bakstykki eru 9 (10) lykkjur og á milli útaukninga í framstykki eru 22 (17) lykkjur) = 9 (10) lykkjur í viðbót. Á framstykkinu eru 49 (54) og á bakstykkinu 51 (58) lykkjur. Prjónið 6 umferðir slétt og skiptið svo yfir í klukkuprjón. Næst er prjónaður bolur.

Rúllukragi:

Fitjið upp á hringprjón nr 5,5 mm 64, (72) lykkjur, tengið í hring og prjónið 2sl, 2 br þar til kraginn mælist 18, (20)cm. Setjið prjónamerki (pm) í byrjun umferðar og eftir 32 (36) lykkjur. Pm eru á sitthvorri öxlinni. Byrjað er á hægri öxlinni. Skiptið yfir á prjóna nr 6,0 mm og aukið út um 6, (7) lykkjur um leið og þið prjónið upp á stærri prjóninn. Á milli útaukninga eru 12 (11) lykkjur. Á prjóninum eiga að vera 78 (85) lykkjur. Prjónið eina (tvær) umf. slétt. Aukið síðan út með því að gera göt; *prjónið 6sl (5sl), sláið upp á prjóninn* Endurtakið *-* út umferðina. Götin myndast þegar næsta umferð er prjónuð slétt yfir allar lykkjurnar. Nú eru 91( 102 ) lykkjur á prjóninum. Prjónamerkin eru í sitt hvorri hlið vestisins. Á minna vestinu eru 45 lykkjur á framstykkinu og 46 á bakstykkinu en jafnmargar lykkjur á báðum stykkjum (51) á stærra vestinu. Prjónið 2 umferðir slétt og ef þið óskið má gera upphækkun að aftan tvisvar sinnum með styttum umferðum. (sjá
útskýringar.

Prjónið slétt og aukið út um 5 lykkjur jafnt yfir bakstykkið, 1 lykkju á hvorri öxl bakstykkis megin og 2 (3) lykkjur jafnt yfir framstykkið ((milli útaukninga á bakstykki eru 9 (10) lykkjur og á milli útaukninga í framstykki eru 22 (17) lykkjur) = 9 (10) lykkjur í viðbót. Á framstykkinu eru 49 (54) og á bakstykkinu 51 (58) lykkjur. Prjónið 6 umferðir slétt og skiptið svo yfir í klukkuprjón. Næst er prjónaður bolur.

Bolur eins á báðum útgáfum.

Á prjóninum eru 100 (112)lykkjur. Það eiga að vera fleiri lykkjur að aftan en að framan. Geyma þarf tvær lykkjur á prjónamerki eða bandi í sitt hvorri hlið vestisins. Takið 1 (0) lykkjur af framstykkinu og 1 (2) af bakstykkinu, þannig að það sé slétt tala á báðum stykkjum. Á framstykkinu eru 48 (54) lykkjur og á bakstykkinu 50 (56) lykkjur. Prjónið fyrst framstykkið. 48 (54)L og geymið bakstykkið á öðrum prjóni (eða nælu / snúru). Á prjóna nr. 6,0mm er prjónað klukkuprjón fram og til baka; byrjið á lykkju þar sem bandinu er slegið upp á og lykkjan tekin fram af og endið á lykkju sem er prjónuð slétt. Prjónað er eins á framhlið og bakhlið. Prjónið klukkuprjón þar til stykkið mælist 38 (40) cm. eða 7-10 cm styttra en þið viljið hafa það. Þetta eru að minnsta kosti 70 umferðir og athugið að klukkuprjón telur fram og til baka sem eina umferð. Athugið einnig að klukkuprjón teygist mikið og því má toga í það þegar það er mælt. Eins er gott að fara í vestið og athuga hversu sítt þið viljið hafa það og hafið í huga að 10cm eiga eftir að bætast við. Endið á röngunni og byrjið að prjóna stroffið á réttunni. Bætið einni lykkju við í upphafi fyrstu umferðar, þannig að slétt lykkja sé á báðum endum á framhliðinni. 49 (51) lykkjur í stroffi Prjónið 1sl og 1br fram og til baka þar til stroffið mælist 7-10 cm (Þið ráðið sídd). FELLIÐ MJÖG LAUST AF. (Ég nota gjarnan prjón sem er númeri stærri en þann sem ég prjónaði með. Prjóna upp á hann og steypi lykkjunum yfir, þá haldast lykkjurnar aðeins víðari og affellingin verður laus).

Prjónið bakstykkið eins, en athugið að lykkjurnar eru 2 fleiri og það má vera síðara að aftan en að framan.

Hliðarlistar.

Takið upp hverja lykkju á allri hliðinni hægra megin (bæði framstykki og afturstykki), líka þessar tvær sem voru geymdar (ekki sleppa lykkjum eins og stundum er gert á listum- takið upp lykkju fyrir hverja umferð). Teljið lykkjurnar og skráið hjá ykkur, því þið viljið hafa jafnmargar lykkjur báðum megin á vestinu. Prjónið 1sl og 1br þar til listinn mælist 5- 7 cm. (Leyfið ykkar mati að ráða).

Áferðin sem sést á myndinni, á að myndast þegar lykkjurnar eru teknar upp. Gerið nákvæmlega eins hinum megin. Passið að taka upp jafnmargar lykkjur á báðum hliðum.

ATHUGIÐ að það eru ekki hnappagöt á vestinu, heldur eru tölurnar saumaðar fastar í gegnum bæði stykkin EFTIR AÐ VESTIÐ HEFUR VERIÐ ÞVEGIÐ – þær eru þá eingöngu skraut en ekki til að hneppa. Það er óþarfi, því vestið er vítt og auðvelt að fara í það og úr. Ef óskað er eftir hnappagötum,-þá skuluð þið fara í vestið áður en þið prjónið hliðarlistana, setja prjónamerki þar sem þið viljið hafa tölurnar og setja hnappagöt þar á móti. Fallegra er að hnappagötin séu á framstykkinu. Hnappagat er gert þannig:

Prjónið hliðarlistann 2,5 cm fram og til baka. Sláið tvo hringi upp á prjóninn þar sem hnappagatið á að vera og prjónið næstu tvær lykkjur saman. Gott er að hafa í huga að þegar horft er á framhliðina á vestinu, þá sé slegið upp á prjóninn fyrir hnappagat við slétta lykkju og 2 lykkjur prjónaðar brugðið saman, því lykkjan er fallegri í sléttu
línunni en þeirri brugðnu. Í næstu umferð er snúningurinn tekinn af en ekki prjónaður og í þriðju umferð er lykkjan prjónuð eins og venjulega. Síðan eru prjónaðar 3 umferðir slétt og brugðið og síðan fellt af. FELLIÐ MJÖG LAUST AF.

Skolið úr vestinu og leggið til þerris. Gott er að leggja rúllukragann í brot en það er ekki nauðsynlegt. Festið tölurnar á eftir að vestið er orðið þurrt, þá lenda þær akkúrat þar sem þið viljið hafa þær. Best er að fara í vestið og setja merki þar sem þið viljið hafa tölurnar.

Það væri gaman að sjá myndir af tilbúnu vesti á Instagram og Facebook með millumerkjunum

#uppspuni
#Búðarhálsvest
#ullarvikuvesti2024

 

Útskýringar

Styttar umferðir:

Prjónið styttar umferðir þannig:

Prjónið að prjónamerki á vinstri öxl, snúið við og takið fyrstu lykkjuna fram af með bandið fyrir framan prjóninn, togið í bandið þannig að lykkjan verður tvöföld og prjónið svo brugðið áfram að hinu prjónamerkinu, snúið við og gerið eins nema nú er prjónað slétt og þegar kemur að lykkjunni sem var tekin fram af í fyrri umferðinni, prjónið þið hana tvöfalda. Prjónið slétt áfram og prjónið hina tvöföldu lykkjuna einnig sem eina. Prjónið eina umferð á milli og endurtakið síðan styttu umferðina en prjónið nú 2 lykkjum lengra en prjónamerkið og snúið þar við á báðum öxlum.

Klukkuprjón:

Klukkuprjón er prjónað fram og til baka og er eins í báðar áttir. Því er sama hvernig flíkin snýr. Í rauninni er það þannig að önnur hvor lykkja er prjónuð, en hin tekin fram af óprjónuð ásamt bandinu, eins og þú ætlir að prjóna brugðið og bandið látið fylgja óprjónuðu lykkjunni. (sjá mynd
1.). Þetta telst sem ein lykkja. Næsta lykkja er prjónuð slétt.

Þegar prjónað er til baka er þessu víxlað. Þá er lykkjan sem var óprjónuð í fyrri umferðinni, með bandi slegnu yfir prjóninn, prjónuð slétt með bandinu sem fylgir (sjá mynd 2.) og lykkjan sem var prjónuð í fyrri umferðinni tekin óprjónuð fram af og bandið látið fylgja með. Á prjóninum eruð þið alltaf með eina prjónaða lykkju og eina óprjónaða lykkju ásamt bandi sem telst sem ein lykkja (sjá mynd 3.) Þægilegast er að byrja prjóninn á að taka óprjónuðu lykkjuna og enda á að prjóna samsettu lykkjuna.

Mynd 1

Mynd 2

Mynd 3