Islenska

Litun á ull og bandi

Eins og náttúrulegir sauðalitir hér á Íslandi eru dásamlegir, þá langar okkur stundum til að fá enn fleiri liti í garnið okkar. Íslensk ull tekur ákaflega vel við ólíkum aðferðum við að lita þræði og hægt er að lita bæði óspunna ull sem fullunnið garn.

Nátúrulega litun má framkvæma annað hvort með jurtum eða dýraafurðum. Að lita með jurtum er nokkuð flókið en ákaflega ánægjulegt og gefandi ferli. Allt frá því að tína plönturnar, undirbúa ullina með litunarfesti og til þess að láta þetta allt malla saman og búa til fallega dulmagnaða liti. Jurtalitun má framkvæma á venjulegri eldavél, gaseldavél eða opnum eldi, í hverskyns pottum og ekki er alltaf öruggt hvernig endanleg útkoma verður.

Önnur aðferð er “sólarlitun”. Þá er allt sett í krukku sem geymd er í sólinni í þó nokkurn tíma. Flestar algengustu plönturnar sem vaxa á Íslandi gefa græna eða gula litatóna; birkilauf, lúpína, kerfill, svona til að nefna eitthvað. Hægvaxta skófir sem eru afar fágætar og dýrmætar, gefa geislandi koníakslit og hafa verið notaðar við jurtalitun síðan víkingarnir lituðu klæði sín til forna. Í dag förum við afar sparlega með skófirnar og tínum aldrei nema  lítið á hverjum stað til að eyða ekki tegundinni. Til að fá bleika og rauða tóna, þarf innflutt litarefni úr jurtum eða dýrum eins og möðrurót og kaktuslús. Og hinn sjaldgæfa bláa lit þarf að fá úr indigo sem einnig er innflutt til þess verkefnis.

Nútímalegar aðferðir og litarefni gefa aðra möguleika við litun ullar en áður fyrr. Duftlitir og kemísk litarefni eru einföld í notkun. Vatn er hitað með ediki (sem gefur aðferðinni nafnið “sýrulitun”) og síðan er liturinn hrærður saman við og þar með er blandan tilbúin til að taka við ullinni og gefa henni bjarta og skínandi liti sem haldast vel. Þessa aðferð má gera hvort sem er á eldavél eða í örbylgjuofni og ótalmargir litatónar eru fáanlegir með þessari aðferð.

Sýrulitun hefur opnað dyr að nýrri og skapandi litunaraðferð þar sem garnið er litað í ólíkum litum og verður þá garnið ýmist slettótt, röndótt eða eyðist út og dökknar til skiptis.