Kennarar á Ullarviku 2022

Guðrún Bjarnadóttir verður með fyrirlestur um bláan lit.
Guðrún er náttúrufræðingur að mennt. Hún jurtalitar band samkvæmt gömlum hefðum en notar til þess nútímatækni td. rafmagn þó aðferðirnar séu þær sömu í grunninn og áður fyrr. Guðrún byrjaði að lita þegar hún skrifaði MS ritgerðina sína um grasnytar á Íslandi en jurtalitun er eitt form af grasnytjum en þá fann hún gamlar heimildir um litun sem vöktu áhuga hennar. Guðrun er alin upp í mikilli handverkshefð en mamma hennar var handavinnukennari og amma hennar kenndi henni að þekkja jurtirnar og nýta þær. Guðrún Rekur jurtalitunarvinnustofuna Hespuhúsið við Selfoss þar sem gestum gefst kostur á að kíkja í litunarpottana og fræðast um gömlu litunarhefðina.

 

 

Margrét veður með námskeið í Lopaprjóni og hönnun ásamt spuna fyrir byrjendur og upprifjun.

Ég heiti Margrét Jónsdóttir, ég er kúa og sauðfjárbóndi. Ég hef verið umkringd handavinnu frá því ég man eftir mér. Móðir mín er mikil handavinnumanneskja og hún bæði prjónaði mikið og saumaði og gerði einnig ýmsa aðra handavinnu, ég lærði góð og vönduð vinnubrögð frá henni. Ég lærði handavinnu í grunnskóla undir handleiðslu frábærra kennara og hef einnig lært mikið í Þingborgarhópnum. Ég hef verið hluti af Þingborgarhópnum frá stofnun hans og hef fengist töluvert við það að hanna peysur og ég gaf út bókina Lopalist árið 2015 ásamt systur minni Önnu Dóru Jónsdóttur. Ég hélt námskeið á Shetland Wool week árið 2017 í lopaprjóni og kenndi uppbyggingu lopapeysunnar, ég rek einnig Ullarverslunina í Þingborg.

 

Anna Dóra verður með námskeið í loaprjóni og hönnun.

Anna Dóra Jónsdóttir fædd 1962, uppalin á Syðra-Velli í Gaulverjabæjarhrepp, nú Flóahrepp, lærði töluvert í handavinnu í uppvextinum undir handleiðslu móður sinnar, fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni, er menntuð sem skrifstofutæknir. Hefur einbeitt sér að prjónaskap undanfarin ár og þá sérstaklega að prjóna úr lopa, gaf út prjónabókina Lopalist með Margréti Jónsdóttur systur sinni árið 2015. 

 

Marled Mader verður með námskeið í bandvefnaði. Marled er fyrrum kennari og hefur ástríðu fyrir að vefa og kenndi sjálfri sér að vefa. Hún einbeitir sér mest að sögulegum og vefnaði sem kemur úr fornleifum og hefur víða kunnáttu um fornaldar handverk eins og litun með plöntum, spjaldvefnað, sprang vefnað, vattarsaum og fleira. Hún elskar að vinna með náttúrulegum efnum eins og ull og silki og sérstaklega með íslenskum reyfum.

Hún hefur kennt námskeið í að lita með plöntum, vefnaði í vefstað, vattarsaumi og fleira í Þýskalandi, Frakklandi, Sviss og Íslandi.

 

Hulda Brynjólfsdóttir kennir tröllaprjón og duftlitun á ullarvikunni. Hún er Spunasystir sem fór alla leið með spunann; hætti vinnu sinni sem kennari og opnaði ásamt Tyrfingi manni sínum fyrstu smáspunaverksmiðju landsins, Uppspuna á bæ þeirra Lækjartúni á Suðurlandi.
Þau búa með nautgripi og sauðfé og spinna garn heima á bænum úr ull af kindunum sínum og eftir óskum viðskiptavina, en fólk getur komið með ull til þeirra og fengið spunnið í band að eigin óskum. Hulda rekur litla verslun fyrir ofan spunasalinn og selur þar náttúrulega liti sauðkindarinnar, en litar allt garnið sjálf sem hún selur litað í búðinni sinni. Hún heldur námskeið og prjónar fyrir fjölskylduna þegar tími gefst til.

 

Guðrún Hildur Rosenkjær verður með námskeið í ullarútsaum.

Klæðskera- og kjólameistari og sagnfræðingur. Hefur kennt þjóðbúningasaum frá 1997 og kennt sérhæfð námskeið í gerð fald- skautbúninga frá 2001. Stundað rannsóknir á íslenskum búningum og þróun þeirra og saumað fjölda búninga. Stofnaði Annríki – Þjóðbúningar og skart 2011 og rekur það ásamt eiginmanni sínum Ásmundi Kristjánssyni velvirkja og gullsmið.

 

 

 

Laura verður með námskeið í skapandi spuna og örbylgju litun af ull og bandi.
Laura Senator, einnig þekkt sem Laura Spinner, er barnalæknir og þráð listakona frá Rainbow Twist Shop (sem er á Etsy). Hún býr í New Jersey í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hún er þekkt fyrir skapandi spuna og litríkt handlitað band og hefur kennt á námskeiðum og smiðjum í bæði bandaríkjunum og á íslandi. Hún er heiðurs Spunasystir.

 

 

 

 

Liz verður með námskeið í jurta áprentun (botanical imprinting). Liz er blómaskreytir að mennt sem hefur gefið henni góða kunnáttu í grasafræði og 6 ár í að læra nýja tækni. Hún þæfir, ræktar hennar eigin plöntur til að lita með og er með skoskar kindur á Dalmally lestarstöðinni í skotlandi.

Hún kennir námskeið og hlakkar til að deila áhuga sínum á áprentun.

 

Marianne verður með námskeið í kríl fyrir foreldra og börn.

Áhugasvið mitt eru víkinga og miðalda textílaðferðir eins og landnámsspuni, halasnælduspuni, vattarsaumur og kríl ásamt tilheyrandi áhöldum sem mörgum eru ókunn í dag. Með því að sameina vísindalegar og sögulegar heimildir með praktíska vinnu gefst glögga mynd af hreint ótrúlegu vinnuframlagi kvenna fyrr á öldum.

Ég hef haldið námskeið í ofangreindum aðferðum í Heimilisiðnaðaskólanum sem og öðrum stofnum bæði hérlendis og erlendis og unnið að endurgerð ýmissa forna textíla, m.a. klæðnaði frá Ketilsstöðum og Herjólfsnesi ásamt fylgihlutum.
Á facebook geng ég undir nafninu Marianne tóvinnukona, þar er hægt að finna myndir af því sem ég geri.
Á academia.edu Marianne Guckelsberger er hægt að nálgast nokkrar greinar eftir mig.

 

Maja Siska verður með námskeið í kembivél og spuna.

Maja er listakona, arkitekt og ferðaþjónustubóndi sem býr í sveit á suðurlandi. Hún hefur spunnið og prjónað frá því í æsku og hefur yndi af alls kyns handverki.

Undanfarin ár hefur íslenska sauðkindin átt hug hennar allan, og úr afurðum kindarinnar hefur Maja unnið margvísleg verk.

Maja hefur kennt spuna á íslandi,  PLYaway í Bandaríkjunum og á Shetland Wool Week.

 

 

Þórey verður með námskeið í spuna fyrir byrjendur og upprifjun.

Þórey er fædd 1949 austur í Fljótsdal og var þar til tvítugs,flutti þá til Reykjavíkur. Hún er sjúkraliði og hefur unnið lengstum við það. Þórey hefur haft áhuga á hvers kyns handverki frá unga aldri. Þórey hefur sótt menntun m.a. í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað, í Ullarskóla Íslands og ýmis námskeið í Þingborg sem og af öðru samferðafólki.

 

 

 

 

Elena verður með námskeið í að prjóna tvo sokka á sama tíma.

Elena heiti ég (f. 1973) og er ævintýragjörn og litrík manneskja með fingurna í alls konar skemmtilegum garn- og tungumálatengdum verkefnum. Ég er mjög spennt fyrir að kenna þér tvöfalt prjón á Ullarvikunni!

Ég prjóna helst 3 – 5 strengda afgangsgarnssokka með helix-aðferðinni, 6 stykki í einu, frá tánni og upp. Hvert par er með sitt einstaka munstur. Af hverju? Af því að ég get það og ég hef gaman að því! Ég kenndi sjálfri mér að prjóna og finnst  langskemmtilegast að kasta mér út í djúpu laugina. Ég man ekki eftir að hafa prjónað pottaleppa! Ég þrífst á því að leysa prjónavandamál á lausnamiðaðan og uppfinningasaman hátt – þú sérð, að ég er tæknisnilli!

Ég nam norræn tungumál og menningu í háskóla í Þýskalandi, en eftir að hafa búið í öllum Norðurlöndunum, settist ég að á Íslandi fyrir rúmlega 20 árum síðan. Sem þýðandi hef ég sérhæft mig í að þýða norrænar prjónauppskriftir yfir á ensku og þýsku, en vinn jafnframt sem túlkur á spítölum.